Gullin í grenndinni

 

Gullin í grenndinni er samstarfsverkefni leik- og grunnskóla á Selfossi. Þeir sem taka þátt eru leikskólarnir Álfheimar, Hulduheimar og Jötunheimar og grunnskólarnir Vallaskóli og Sunnulækjarskóli. Samstarfsaðilar verkefnisins eru: Suðurlandsskógar, Skógræktarfélag Selfoss og umhverfisdeild Árborgar. Verkefnastjórar eru Ólafur Oddsson og Anna Gína Aagestad. Leikskólinn Álfheimar eru í samstarfi við Vallaskóla og leikskólarnir Jötunheimar og Hulduheimar eru í samstarfi við Sunnulækjarskóla.

Markmið verkefnisins er að stuðla að samfellu og samskiptum milli skólastiga, en í skólanámskrám beggja skólastiga er lögð áhersla á þessa þætti. Í aðalnámskrá grunnskóla segir að kennarar á báðum skólastigum þurfi að kynna sér nám og starfsaðferðir hvers annars þannig að börn  upplifi samfellu milli leik- og grunnskóla. Til þess að tryggja að svo verði þurfa leik- og grunnskólar að vinna áætlun sem felur í sér sameiginlegar áherslur beggja skólastiga samkvæmt aðalnámskrá sem og ákvarðanir um verkferla og ábyrgð á framkvæmdinni (Aðalnámskrá grunnskóla 2011:53). Kennarar og annað starfsfólk á báðum skólastigum eiga að kynna sér nám og starfsaðferðir hvers annars og leita leiða til að móta samstarf og skapa samfellu í námi barna í því augnamiði að auka sjálfstraust barna og styðja við nám þeirra (Aðalnámskrá leikskóla 2011:33).

Leiðin að þessum markmiðum er sú að skólarnir velja sér svæði á Selfossi sem þau rannsaka og safna upplýsingum um og færa inn í gagnagrunn, en  þannig nýtast  upplýsingarnar sem flestum.  Með þátttöku í verkefninu verða nemendur meðvitaðir um gildi, viðhorf, og tilfinningar sínar gagnvart náttúrunni og samfélaginu og einnig fá nemendur tækifæri til að þekkja, skilja og virða náttúruna og samfélagið. Einnig felst þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og því að stuðlað sé að áhuga og vilja til þess að börnin og ungmennin taki þátt í samfélaginu sem þau búa í. 

Nemendur hafa valið sér svæði og fyrir valinu hjá leikskólanum Álfheimum og Vallaskóla var skógurinn við Gesthús. Nafnasamkeppni var hjá nemendum skólanna og varð fyrir valinu  nafnið Vinaskógur. Allir hóparnir hafa valið sér svæði innan Vinaskógar þar sem þeir dvelja við rannsóknir og náttúrupplifanir í ferðunum.  Nemendur í Jötunheimum og Sunnulækjarskóla hafa valið Fagraskóg sem  námssvæði en hann er staðsettur við Norðurhóla. Hulduheimar og Sunnulækjarskóli  völdu Vinaskóg við Langholt.